Fimm leikja bann fyrir rautt spjald gegn United

Stuart Attwell dómari sýnir Jack Stephens rauða spjaldið í leiknum.
Stuart Attwell dómari sýnir Jack Stephens rauða spjaldið í leiknum. AFP/Glyn Kirk

Enski knattspyrnumaðurinn Jack Stephens, miðvörður Southampton, hefur verið úrskurðaður í alls fimm leikja bann og gert að greiða 50.000 pund, níu milljónir íslenskra króna, í sekt.

Stephens fékk beint rautt spjald í 0:3-tapi Southampton fyrir Manchester United eftir ljótt brot á Alejandro Garnacho í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði og fór þá sjálfkrafa í þriggja leikja bann sem hann er búinn að taka út.

Enska knattspyrnusambandið bætti hins vegar við tveimur leikjum til viðbótar og sektaði Stephens í dag vegna hegðunar hans eftir að varnarmaðurinn fékk spjaldið.

Hann lét þá dómara leiksins Stuart Attwell heyra það og sömuleiðis fjórða dómarann Gavin Ward. Blótaði Stephens þeim í sand og ösku sem varð til þess að Attwell skrifaði um hátterni hans í leikskýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert