Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur mikinn áhuga á því að festa kaup á enska miðverðinum Jarrad Branthwaite frá nágrönnunum í Everton. Erkifjendur Liverpool í Manchester United hafa sýnt honum mikinn áhuga.
Daily Mail greinir frá því að Liverpool hafi íhugað að leggja fram tilboð í varnarmanninn í lok ágúst á þessu ári. Everton hafnaði tveimur tilboðum Man. United í Branthwaite í sumar.
Rauðu djöflarnir sneru sér þá annað og keyptu tvo miðverði, þá Matthijs de Ligt og Leny Yoro.
Liverpool er sagt ætla að leggja fram tilboð í Branthwaite þegar félagaskiptaglugginn í janúar verður opnaður og að hann sé hugsaður sem arftaki fyrirliðans Virgils van Dijks.
Samningur van Dijks rennur út næsta sumar.