Þeir verða að senda mér reikninginn

Pep Guardiola er að vonum vinsæll í ljósbláa hluta Manchester.
Pep Guardiola er að vonum vinsæll í ljósbláa hluta Manchester. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, er ánægður með stuðningsfólk félagsins sem ætlar að sýna honum mikinn stuðning á heimaleiknum gegn Fulham á morgun.

Guardiola kveðst vera óviss um hvað taki við þegar samningur hans við félagið rennur út næsta sumar en hann hefur stýrt City í níu ár með afar góðum árangri.

BBC skýrði frá því að stuðningshópurinn The 1894 Group, sem heldur utan um fána og borða á Etihad-vellinum í Manchester, hefði safnað saman rúmlega eitt þúsund pundum á einum sólarhring til að framleiða stóran borða sem verður á vellinum á morgun.

Í honum mun standa: „Pep Guardiola, við viljum að þú verðir áfram," á móðurmáli hans, katalónsku.

„Þeir verða að senda mér reikninginn, ég verð að greiða fyrir þennan borða. Hvað get ég sagt? Þakka ykkur kærlega fyrir, ég hef verið ástfanginn af ykkur frá fyrsta degi. Sjáum til hvað gerist," sagði Guardiola þegar þetta  var borið undir hann á fréttamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert