Aston Villa og Manchester United skildu jöfn, 0:0, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta á Villa Park í dag. Aston Villa er með 14 stig í 5. sæti. United er í 14. sæti með átta stig.
Manchester United hefur nú leikið fimm leiki í röð í öllum keppnum án þess að vinna. Þá eru sigrarnir aðeins tveir í síðustu níu leikjum. Þar á meðal er sigur á Barnsley úr C-deildinni í deildabikarnum.
Liðinum gekk illa að skapa sér gott færi í fyrri hálfleik. Marcus Rashford átti skot beint á Emiliano Martínez snemma leiks og Morgan Rodgers skaut rétt framhjá marki United skömmu síðar. Jaden Philogene-Bidace lét vaða af 20 metra færi á 20. mínútu en boltinn fór framhjá marki gestanna.
Lítið markvert gerðist eftir það og var staðan í leikhléi því markalaus.
Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri. Liðunum gekk illa að skapa sér gott færi og var leikurinn frekar lokaður.
Bruno Fernandes komst næst því að skora þegar hann negldi boltanum í slána úr aukaspyrnu á 68. mínútu. Jaden Philogene-Bidace komst nálægt hinum megin í uppbótartíma en hann skaut í Diogo Dalot og framhjá úr góðu færi í teignum.
Inn vildi boltinn hins vegar ekki og liðin skiptu með sér stigunum.