James Ward-Prowse gerði sig sekan um ótrúleg mistök þegar hann fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í 1:1-jafntefli liðs hans Nottingham Forest gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Ward-Prowse rann þá til og handsamaði boltann á eigin vallarhelmingi þegar Nicolas Jackson var að sleppa einn í gegn.
Þá var staðan 1:1 eftir að Chris Wood hafði komið Forest yfir og Noni Madueke jafnað metin fyrir Chelsea.
Einum fleiri fékk Chelsea nokkur úrvalsfæri en Matz Sels í markinu varði nokkrum sinnum frábærlega.
Svipmyndir úr leiknum má sjá í spilaranum hér að ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samstarfi við Símann Sport.