Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool eiga nú í samningaviðræðum við þá Ibrahima Konaté og Jarell Quansah.
Það er breski miðillinn Mirror sem greinir frá þessu en varnarmennirnir hafa báðir verið í stóru hlutverki hjá liðinu.
Konaté, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá RB Leipzig sumarið 2021 fyrir 36 milljónir punda en hann á að baki 99 leiki fyrir félagið.
Quansah, sem er 21 árs gamall, er uppalinn hjá Liverpool og lék sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir félagið árið 2021 en hann á að baki 35 leiki fyrir félagið.
Núgildandi samningur Konaté rennur út sumarið 2025 en samningur Quansah á að renna út sumarið 2026.
Virgil van Dijk, Mohamed Salah og Trent Alexander-Arnold verða allir samningslausir næsta sumar en lítið hefur frést af samningaviðræðum félagsins við þremenningana.