Mohamed Salah og Virgil van Dijk, tveir af lykilmönnum enska knattspyrnufélagsins Liverpool, gætu verið á leið til Sádi-Arabíu þegar samningar þeirra í Bítlaborginni renna út.
Það er vefmiðillinn Caught Offside sem greinir frá þessu en samningar þeirra beggja renna út næsta sumar og hefur lítið heyrst af samningaviðræðum félagsins við tvíeykið.
Salah, sem er 32 ára gamall, gekk til liðs við Liverpool frá Roma sumarið 2017 fyrir 36,5 milljónir punda en hann á að baki 359 leiki fyrir félagið og 217 mörk.
Van Dijk, sem er 33 ára gamall og fyrirliði liðsins, gekk til liðs við Liverpool frá Southampton í janúar árið 2018 fyrir 75 milljónir punda og á að baki 279 leiki fyrir félagið.
Caught Offside greinir frá því að Al-Ahli hafi mikinn áhuga á tvímenningunum en fyrrverandi leikmaður Liverpool, Roberto Firmino, er fyrirliði liðsins.
Þá leika Riyad Mahrez, Éduard Mendy og Ivan Toney allir með liðinu en þeir gengu til liðs við sádiarabíska félagið frá félögum í ensku úrvalsdeildinni.