Framtíð Erik ten Hag sem knattspyrnustjóri Manchester United ræðst í dag er forráðamenn félagsins funda í Lundúnum. The Guardian greinir frá.
Fari svo að ten Hag fái reisupassann eru miklar líkur á því að Ruud van Nistelrooy, aðstoðarmaður hans og fyrrverandi leikmaður United, taki tímabundið við.
Enski miðillinn segir að ekki sé búið að taka ákvörðun um að reka ten Hag og gæti hann því haldið áfram sem knattspyrnustjóri.
The Guardian segir að Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe verði á fundinum, ásamt Omar Berrada, Dan Ashworth og Jason Wilcox, sem allir gegna stórum hlutverkum í stjórn félagsins.
United hefur ekki byrjað verr í efstu deild Englands í 35 ár og er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með átta stig eftir sjö leiki. Þá er liðið sigurlaust eftir tvo leiki í Evrópudeildinni.