Axel Tuanzebe, varnarmaður nýliða Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, verður frá keppni næsta mánuðinn eða svo eftir að hafa slasað sig við húsverkin.
Breska ríkisútvarpið greinir frá því að Tuanzebe hafi meiðst við að vaska upp. Hafði hann byrjað fyrstu sex leiki Ipswich í úrvalsdeildinni á tímabilinu en missti af leik liðsins gegn West Ham United á laugardag vegna óhappsins.
Þetta var mjög óheppilegt slys. Við söknum hans auðvitað ef tekið er mið að því hvernig hann hefur byrjað tímabilið. Hann verður frá um skeið, sagði Kieran McKenna, knattspyrnustjóri Ipswich, við fréttamenn eftir leikinn á laugardag.
Tuanzebe gekkst undir skurðaðgerð sem heppnaðist vel og verður frá í að minnsta kosti mánuð.