Á fundi aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, voru alls 15 leikmenn og einn þjálfari úr Bestu deildum karla og kvenna úrskurðaðir í leikbann.
Agla María Albertsdóttir, leikmaður Íslandsmeistara Breiðabliks, var úrskurðuð í eins leiks bann vegna fjögurra áminninga.
Lillý Rut Hlynsdóttir, miðvörður Vals, var sömuleiðis úrskurðuð í eins leiks bann vegna sjö áminninga.
Þar sem tímabilinu er lokið í Bestu deild kvenna og refsingar vegna gulra spjalda færast ekki yfir á næsta tímabil sleppa Agla María og Lillý Rut við að taka út leikbann.
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, fer í tveggja leikja bann eftir að hann fékk sína aðra brottvísun á tímabilinu í jafntefli gegn HK, sem þýðir að Fylkir er fallinn niður í 1. deild.
Leikmaðurinn Daði Ólafsson, sem var liðsstjóri Fylkis í leiknum, fékk sömuleiðis beint rautt spjald og fer í eins leiks bann. Þórður Gunnar Hafþórsson er einnig á leið í eins leiks bann eftir að hafa fengið fjórar áminningar í sumar.
Þrír leikmenn Vals voru einnig úrskurðaðir í eins leiks bann; Birkir Már Sævarsson og Hörður Ingi Gunnarsson vegna fjögurra áminninga og Sigurður Egill Lárusson vegna sjö áminninga.
Hjá Vestra voru þrír leikmenn sömuleiðis úrskurðaðir í eins leiks bann; Ibrahima Baldé vegna brottvísunar, Elmar Atli Garðarsson vegna sjö áminninga og Fatai Gbadamosi vegna fjögurra áminninga.
Atli Arnarson og Tareq Shihab hjá HK fara þá báðir í eins leiks bann vegna sjö áminninga.
Bjarni Aðalsteinssong hjá KA, Aron Þórður Albertsson hjá KR og Karl Friðleifur Gunnarsson hjá Víkingi eru sömuleiðis á leið í eins leiks bann vegna sjö áminninga.