Knattspyrnumaðurinn Bukayo Saka, varafyrirliði og lykilmaður Arsenal, fór meiddur af velli í 1:2-tapi enska landsliðsins fyrir því gríska á Wembley í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í gærkvöldi.
Saka haltraði af velli snemma í síðari hálfleik og virtist hafa meiðst aftan á læri. Hann fer í myndatöku í dag þar sem kemur í ljós hversu alvarleg meiðslin eru.
Vænta má þess að Lee Carsley, bráðabirgðaþjálfari Englands, greini frá því á fréttamannafundi á morgun hversu lengi Saka megi eiga von á að vera frá keppni.
Hann hefur farið frábærlega af stað á tímabilinu þar sem Saka er þegar búinn að leggja upp sjö mörk í sjö leikjum í ensku úrvalsdeildinni ásamt því að skora tvö mörk.
Þá hefur hann skorað eitt mark í tveimur leikjum í Meistaradeild Evrópu.