Enska félagið sektað um 134 milljónir

Evangelos Marinakis, eigandi Nottingham Forest, þungur á brún.
Evangelos Marinakis, eigandi Nottingham Forest, þungur á brún. AFP/Paul Ellis

Enska knattspyrnusambandið hefur sektað Nottingham Forest um 750.000 pund, jafnvirði 134 milljóna íslenskra króna, fyrir ummæli sem félagið birti um VAR-dómarann Stuart Attwell á samfélagsmiðlum sínum í apríl síðastliðnum.

Forest birti harðorða yfirlýsingu eftir 2:0-tap fyrir Everton þar sem heilindi Attwells sem dómara voru dregin í efa og bent á að hann væri stuðningsmaður Luton Town, sem var í harðri botnbaráttu við Forest og Everton á síðasta tímabili.

Forest var ósátt við að fá ekki dæmdar þrjár vítaspyrnur í leiknum og kvaðst hafa beðið um að Attwell yrði skipt út sem VAR-dómara fyrir leikinn en að á beiðni félagsins hafi ekki verið hlustað.

Sjálfstæð nefnd komst að þeirri niðurstöðu að Forest hafi með yfirlýsingu sinni ráðist gegn heilindum dómara og að árásin eigi sér vart samanburð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert