Lee Carsley, bráðabirgðalandsliðsþjálfari Englands í knattspyrnu karla, staðfesti við blaðamenn í gær að meiðsli Bukayo Saka lykilmanns Arsenal væru ekki alvarleg.
Saka fór meiddur af velli í tapi Englands fyrir Grikklandi, 2:1, á Wembley-leikvanginum síðastliðið fimmtudagskvöld.
Hann var síðan sendur heim til skoðunar hjá Arsenal og óttuðust stuðningsmenn að um alvarleg meiðsli væri að ræða.
Þjálfarinn sló á þær sögusagnir og sagði að Saka hefði getað spilað leikinn gegn Finnlandi í kvöld en að þeir hafa ákveðið að passa upp á hann.
Arsenal heimsækir Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni næstu helgi.