Ferguson hættir störfum fyrir United

Sir Alex Ferguson.
Sir Alex Ferguson. AFP/Darren Staples

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri karlaliðs Manchester United, mun láta af störfum sem sérstakur sendiherra félagsins í lok tímabilsins.

Ferguson hefur starfað sem alþjóðlegur sendiherra Man. United allt frá því að hann hætti sem knattspyrnustjóri árið 2013 og fengið ríkulega greitt fyrir.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að ákvörðunin hafi verið tekin í mesta bróðerni eftir að Ferguson og Sir Jim Ratcliffe, meðeigandi félagsins, hafi rætt saman. Ferguson verði áfram innilega velkominn á Old Trafford, heimavöll Man. United.

Ratcliffe hefur lýst því yfir að hann leitist eftir því að skera niður kostnað og er þetta einn liður í því. Ratcliffe hefur þegar sagt upp yfir 250 starfsmönnum og reiknar félagið með því að spara um tíu milljónir punda á ári með því.

Man. United tapaði 113 milljónum punda á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert