Nuno Espírito Santo, knattspyrnustjóri Nottingham Forest, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann eftir að hann fékk rautt spjald í jafntefli gegn Brighton í ensku úrvalsdeildinni í síðasta mánuði.
Santo var kærður af enska knattspyrnusambandinu vegna hátternis síns líkt og Morgan Gibbs-White, leikmaður Forest sem fékk tvö gul spjöld og þar með rautt, og Fabian Hürzeler, knattspyrnustjóri Brighton.
Auk þess að fá þriggja leikja bann var Santo sektaður um 55.000 pund og Gibbs-White um 20.000 pund. Hürzeler fékk ekki leikbann en var sektaður um 8.000 pund.
„Ég er hissa. Þetta er þung refsing en það er ekkert sem við getum gert. Við mættum fyrir nefnd, þar var allt eðlilegt. Það er búið að ákveða refsinguna. Við höldum áfram,“ sagði Santo á fréttamannafundi í dag.
Evangelos Marinakis, eigandi Forest, hefur þá verið úrskurðaður í fimm leikja bann frá leikvöngum á Englandi eftir óviðeigandi hegðun við dómara eftir tap liðsins fyrir Fulham í síðasta mánuði. Félagið hyggst áfrýja þeim úrskurði.