Sterkur útisigur Aston Villa

Villa-menn fagna marki Ollie Watkins.
Villa-menn fagna marki Ollie Watkins. AFP/Adrian Dennis

Fimm leikjum í ensku úrvalsdeildinni var að ljúka rétt í þessu. Aston Villa hafði betur gegn Fulham, 3:1, í Lundúnum í dag.

Mexíkóinn Raúl Jiménez kom heimamönnum yfir eftir aðeins fimm mínútna leik. Aston Villa var ekki lengi að jafna metin en á 9. mínútu skoraði Morgan Rogers fyrir gestina.

Um miðbik fyrri hálfleiks fiskaði Jiménez víti fyrir Fulham. Andreas Pereira fór á punktinn en Emiliano Martinez varði frá honum. Staðan 1:1 í hálfleik.

Aston Villa tók forystuna á 59. mínútu með marki frá Ollie Watkins. Skömmu síðar fékk Joachim Andersen, varnarmaður Fulham, beint rautt spjald eftir að hann braut á Ollie Watkins sem var sloppinn í gegn.

Issa Diop, varnarmaður Fulham, varð síðan fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Í uppbótartíma nældi Jaden Philogene-Bidace, leikmaður Aston villa, í sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Ólseigir Brighton-menn

Brighton vann nauman sigur á útivelli gegn Newcastle, 1:0. Eina mark leiksins kom á 35. mínútu og var það hinn sjóðheiti Danny Welbeck sem skoraði það.

Ótrúlegur endurkomusigur

Southampton og Leicester mættust í nýliðaslag á suðurströndinni. Leikar enduðu með svakalegum 3:2-sigri Leicester.

Cameron Archer kom Southampton yfir á áttundu mínútu. Joe Aribo tvöfaldaði síðan forystu Dýrlingana á 28. mínútu.

Argentínumaðurinn Facundo Buonanotte minnkaði muninn á 64. Mínútu fyrir Leicester. Á 73. mínútu slapp Jamie Vardy einn í gegn. Ryan Fraser, leikmaður Southampton, braut á Vardy í teignum og fékk beint rautt spjald og Leicester fékk vítaspyrnu.

Vardy fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi. Á áttundu mínútu í uppbótartíma skoraði síðan Jordan Ayew sigurmarkið og tryggði Leicester stigin þrjú.

Sjö stig Everton af síðustu níu

Everton sótti þá stigin þrjú til Ipswich með því að vinna Ipswich-liðið 2:0. 

Eftir afleita byrjun hefur Everton nú unnið tvo af síðustu þremur leikjum sínum en sá þriðji endaði jafntefli. 

Iliman Ndiaye og Michael Keane skoruðu mörk Everton. 

Stærsti leikurinn fór á Old Trafford en þar vann Manchester United góðan sigur gegn Brentford, 2:1. Mbl.is fylgdist vel með leiknum í beinni textalýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert