Næsti knattspyrnustjóri Manchester United?

Xavi.
Xavi. AFP/Oscar Del Pozo

Spænski knattspyrnustjórinn Xavi hefur rætt við forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United um að taka við stjórnartaumunum hjá félaginu.

Það er Sportsmail sem greinir frá þessu en Xavi, sem er 44 ára gamall, hefur verið án starfs síðan hann lét af störfum hjá uppeldisfélagi sínu Barcelona í sumar.

Erik ten Hag, stjóri United, þykir valtur í sessi þessa dagana eftir slæma byrjun á tímabilinu en United vann þó um síðustu helgi gegn Brentford, 2:1, í 8. umferð úrvalsdeildarinnar á Old Traffford.

United er með 11 stig í 12. sæti deildarinnar en enskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um það fyrir helgina að ten Hag yrði rekinn ef United myndi tapa á heimavelli fyrir Brentford.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert