Nunez hetja Liverpool í Þýskalandi

Darwin Nunez, markaskorari Liverpool, horfir á eftir boltanum í kvöld.
Darwin Nunez, markaskorari Liverpool, horfir á eftir boltanum í kvöld. AFP/Ronny Hartmann

RB Leipzig og Liverpool mættust í þriðju umferð Meistaradeildar Evrópu í Þýskalandi í kvöld. Liðin buðu upp á fjörugan leik sem endaði með sigri Liverpool, 1:0.

Eftir leikinn er RB Leipzig í 31. sæti Meistaradeildarinnar án stiga en Liverpool er aftur á móti í 2. sæti með níu stig.

Benjamin Sesko, framherji RB Leipzig, fékk besta tækifæri sinna manna í fyrri hálfleik á 19. mínútu þegar Caomihin Kelleher, markvörður Liverpool, kom út úr marki sínu og reyndi að skalla boltann í innkast. Skallinn dreif ekki alla leið og Sesko náði til hans áður en hann fór út af. Slóveninn lét vaða í átt að tómu marki gestanna en skot hans fór rétt fram hjá fjærstönginni.

Lois Openda kom boltanum tvívegis í mark Liverpool en í …
Lois Openda kom boltanum tvívegis í mark Liverpool en í bæði skiptin var hann dæmdur rangstæður. AFP/Ronny Hartmann

Lois Openda kom boltanum í net gestanna með góðu skoti á 26. mínútu en var flaggaður rangstæður. Þetta var réttur dómur hjá svissneska dómaratríóinu.

Aðeins mínútu síðar kom sigurmark leiksins þegar Darwin Nunez kom Liverpool yfir. Kostas Tsimikas átti þá fyrirgjöf á Mohamed Salah sem skallaði að marki. Skallinn var laus og sá Nunez til þess að boltinn færi örugglega yfir marklínuna og tryggði hann sér markið í leiðinni.

Á 32. mínútu var Nunez nálægt því að skora aftur þegar hann skallaði frábæra fyrirgjöf Cody Gakpo að marki en Peter Gulacsi, markvörður RB Leipzig, varði vel í horn.

Darwin Nunez skorar sigurmarkið í kvöld.
Darwin Nunez skorar sigurmarkið í kvöld. AFP/Ronny Hartmann

Cody Gakpo var nálægt því að skora á 49. mínútu þegar fyrirgjöf frá Darwin Nunez endaði fyrir fótunum á Hollendingnum. Gakpo náði skoti að marki en Gulacsi varði vel í marki heimamanna.

Leipzig-liðið var hættulegra í seinni hálfleiknum en náði ekki að koma inn marki þar sem vörn Liverpool stóð eins og klettur fyrir framan Kelleher í markinu.

Á 83. mínútu hélt Lois Openda að hann væri búinn að skora en aftur var hann rétt fyrir innan vörn Liverpool-manna og flaggið fór réttilega á loft.

Meira markvert gerðist ekki og fagnaði Liverpool-liðið sterkum sigri í Þýskalandi.

Ellefti sigur Liverpool í tólf leikjum undir stjórn Arne Slot var staðreynd og er liðið líklegt til afreka á þessu tímabili.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Leipzig 0:1 Liverpool opna loka
90. mín. Luis Díaz (Liverpool) á skot sem er varið +4 - Diaz lætur vaða fyrir utan teig en Gulacsi ver.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert