Mjög svekktur að hafa ekki unnið leikinn

Mikel Arteta.
Mikel Arteta. AFP/Glyn Kirk

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var stoltur af lærisveinum sínum eftir jafntefli gegn Liverpool, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í gær en viðurkenndi að hann væri svekktur yfir því að Skytturnar hafi ekki unnið leikinn.

„Ég er mjög stoltur af liðinu, sérstaklega miðað við þær aðstæður sem við erum að glíma við í augnablikinu. Við vorum mjög góðir, mjög beinskeyttir. Munurinn hefði átt að vera meiri og án þess að fá á okkur nein færi gáfum við þeim tvö mörk.

Við erum að glíma við fimm meiðsli í öftustu línu og það eru aðstæður sem við þurfum að fást við. Ég er mjög svekktur yfir því að við unnum ekki leikinn,“ sagði Arteta á fréttamannafundi eftir leikinn í gær.

Í viðtali í sjónvarpsþættinum Match of the Day bætti hann við:

„Liðið spilaði svo vel. Við stjórnuðum leiknum og vorum mjög ákveðnir. Við vorum virkilega ákafir og spiluðum á réttum svæðum til þess að skapa okkur hættuleg færi.

Við vorum opnir í öðru markinu þegar við misstmum boltann. Gegn þessu Liverpool-liði máttu það ekki ef þú vilt vinna leikinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert