Ten Hag: Þetta er óréttlátt

Erik ten Hag lætur í sér heyra á hliðarlínunni í …
Erik ten Hag lætur í sér heyra á hliðarlínunni í gær. AFP/Glyn Kirk

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir liðið óréttlæti beitt eftir að það tapaði með dramatískum hætti fyrir West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Staðan var 1:1 þegar West Ham fékk dæmda vítaspyrnu í kjölfar þess að dómarinn David Coote var sendur til að skoða VAR-skjáinn. Upphaflega hafði hann ekki dæmt neitt þegar Danny Ings féll við í vítateignum en við nánari athugun þótti Coote sem Matthijs de Ligt hafi brotið á Ings.

„Fyrir tímabilið var tilmælum beint til VAR-dómara að hafa einungis afskipti af augljósum mistökum. Þetta voru svo sannarlega ekki augljós mistök hjá dómaranum á vellinum,“ sagði ten Hag í viðtali í sjónvarpsþættinum Match of the Day í gær.

„Ég ræddi við dómarana eftir leikinn en það er búið að taka þessa ákvörðun. Það er ekki hægt að taka þetta til baka og þannig er fótboltinn.

Þetta er í þriðja sinn á þessu tímabili sem mér finnst við beittir óréttlæti og það hefur mikil áhrif á liðið okkar, úrslitin og hvar við erum í töflunni. Þetta er ekki réttlátt,“ sagði ten Hag einnig.

Man. United er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins 11 stig eftir níu leiki, sem er versta byrjun liðsins í rúmlega þriggja áratuga sögu deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert