Helsta ástæðan fyrir brottrekstri ten Hags?

Erik ten Hag.
Erik ten Hag. AFP/Oli Scarff

Kaveh Solhekol, íþróttafréttamaður og þáttastjórnandi hjá Sky Sports, fullyrðir að Erik ten Hag hafi verið sagt upp störfum sem knattspyrnustjóra Manchester United vegna sambands hans við marga leikmenn liðsins.

Ten Hag var sagt upp störfum í gær eftir að hafa stýrt liðinu í tæplega tvö og hálft ár en liðið tapaði fyrir West Ham, 2:1, í 9. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í Lundúnum um síðustu helgi.

United er sem stendur í 14. sæti úrvalsdeildarinnar með einungis 11 stig eftir fystu níu umferðirnar en liðið hefur ekki þótt sannfærandi í upphafi tímabilsins.

Lenti upp á kant við marga

„Samband hans við marga leikmenn liðsins hefur ekki verið farsælt,“ sagði Solhekol í myndveri Sky Sports.

„Það voru margir ósáttir við framkomu hans í garð Davids De Gea þegar hann yfirgaf félagið. Hvernig hann tók fyrirliðabandið opinberlega af Harry Maguire og meðferð hans á varnarmanninum heilt yfir. Samband hans við Jadon Sancho var líka slæmt.

Ég er ekki að segja að hann hafi verið búinn að missa klefann en hann lenti upp á kant við marga leikmenn sem eru eða voru stórar raddir í búningsklefanum. Samband hans við leikmenn liðsins, heilt yfir, hefur ekki verið frábært,“ sagði Solhekol meðal annars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert