Ruud van Nistelrooy, bráðabirgðastjóri karlaliðs Manchester United, segir það blendnar tilfinningar sem fylgi því að stýra liðinu í enska deildabikarnum eftir að landi hans frá Hollandi, Erik ten Hag, var rekinn úr starfi á mánudag.
Man. United fær Leicester City í heimsókn á Old Trafford í 16-liða úrslitunum klukkan 19.45 í kvöld.
„Eins og ég er viss um að allir geti ímyndað sér rita ég þessi orð uppfullur af blendnum tilfinningum.
Erik ten Hag fékk mig aftur til Manchester United í sumar og þó ég hafi aðeins verið hluti af þjálfarateyminu verð ég ævinlega þakklátur honum fyrir að hafa veitt mér þetta tækifæri og ég er leiður yfir því að sjá hann fara,“ skrifaði van Nistelrooy í leikskrá félagsins fyrir leik kvöldsins.