Falleg stund í Skírisskógi (myndskeið)

Nuno Espírito Santo ásamt meðlimi Warriors United á fréttamannafundinum.
Nuno Espírito Santo ásamt meðlimi Warriors United á fréttamannafundinum. Skjáskot/Nottingham Forest

Enska knattspyrnufélagið Nottingham Forest stóð á dögunum fyrir óhefðbundnum fréttamannafundi í tilefni þess að október er mánuður downs-heilkennisins.

Félagið bauð meðlimum Warriors United, íþróttafélags í Nottinghamskíri fyrir börn sem eiga við námsörðugleika að stríða, að vera viðstaddir æfingu karlaliðsins og sitja sérstakan fréttamannafund með Nuno Espírito Santo, knattspyrnustjóra liðsins.

Úr varð falleg stund þar sem stúlka með downs-heilkenni byrjaði á því að spyrja Espírito Santo hver uppáhalds leikmaður hans hafi verið þegar hann var ungur strákur.

„Ég veit ekki hvort þið munið eftir honum, það er mjög langt síðan. Það var Maradona,“ svaraði Espírito Santo.

Piltur með downs-heilkenni að nafni Joseph spurði hann svo hver uppáhalds popphljómsveit hans væri og tjáði svo portúgalska stjóranum að hann væri góður maður.

Fleiri báru upp spurningar og voru þær áfram bæði fótboltatengdar og alls ekki.

Myndskeið af fréttamannafundinum má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka