Hver er nýja vonarstjarna Arsenal?

Ethan Nwaneri er kominn með þrjú mörk í tveimur leikjum …
Ethan Nwaneri er kominn með þrjú mörk í tveimur leikjum í deildabikarnum. AFP/Paul Ellis

Knattspyrnumaðurinn ungi Ethan Nwaneri hefur farið frábærlega af stað með Arsenal í þeim leikjum sem hann hefur fengið að spila sem af er tímabilsins. 

Nwaneri lék fyrstu 80 mínúturnar og skoraði glæsilegt mark utan teigs í sigri Arsenal á Preston, 3:0, í 16-liða úrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi. 

Nwaneri skoraði þá tvö mörk fyrir Arsenal í sigri á Bolton í 32-liða úrslitum deildabikarsins og er því kominn með þrjú mörk í tveimur leikjum í keppninni. 

Hann hefur einnig verið að fá tækifæri með Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. 

19 mörk fyrir yngri landslið

Nwaneri, sem er aðeins 17 ára gamall, hefur verið hjá Arsenal síðan hann var átta ára en hann varð yngsti leikmaður sögunnar til að spila leik í ensku deildinni þegar hann kom inn á í sigri Arsenal á Brentford haustið 2022, þá 15 ára gamall. 

Nwaneri á að baki fjölda allan af leikjum fyrir yngri landslið Englands og hefur skorað 19 mörk í þeim. 

Hann kom aðeins inn á í einum leik með aðalliði Arsenal á síðustu leiktíð en hefur fengið mun fleiri tækifæri í ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert