Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Sporting Lissabon, segir að allt verði orðið ljóst hvað fyrirhuguð skipti hans til Manchester United varðar í kvöld.
Sporting á leik gegn Estrela da Amadora í efstu deild Portúgals í kvöld og sagði Amorim á fréttamannafundi í gær að ákvörðun yrði opinberuð að honum loknum.
„Það eru viðræður í gangi milli félaganna, það er aldrei auðvelt. Hvað ákvæðin varðar er þetta aldrei auðvelt. Þau þurfa að ræða saman og við munum fá þetta á hreint eftir leikinn, þá verður þetta allt saman ljóst.
Þetta er bara einn dagur í viðbót eftir leikinn á morgun [í kvöld], þá verðum við búnir að taka ákvörðun,“ sagði portúgalski stjórinn.
Sky Sports greindi frá því í gær að Amorim muni taka við stjórnartaumunum hjá Man. United í næsta landsleikjahléi sem hefst eftir tæpar tvær vikur.
Sir Dave Brailsford, stjórnarmeðlimur hjá enska félaginu, sagði við stuðningsmenn fyrir leik gegn Leicester City á miðvikudag að allt væri klappað og klárt og greindi breska ríkisútvarpið frá því í gær að heimildarmenn þess í Portúgal tækju undir það.
Sporting hefur hins vegar sagt að samkomulag sé ekki í höfn og að viðræður séu enn í gangi.