United kynnir nýjan knattspyrnustjóra

Rúben Amorim.
Rúben Amorim. AFP/Patrícia de Melo Moreira

Portúgalinn Rúben Amorim hefur verið ráðinn nýr knattspyrnustjóri Manchester United. Skrifaði hann undir samning sem gildir til tæplega þriggja ára, sumarsins 2027.

Man. United hefur möguleika á að framlengja samninginn einhliða um eitt ár til viðbótar.

Amorim tekur ekki strax við, lýkur fyrst störfum sínum hjá Sporting í Lissabon, en tekur svo við þann 11. nóvember næstkomandi. Fyrsti leikurinn sem hann stýrir verður útileikur gegn Ipswich Town í ensku úrvalsdeildinni þann 24. nóvember.

Portúgalinn er 39 ára gamall og hefur stýrt Sporting frá árinu 2020. Á þeim tíma hefur liðið unnið portúgalska meistaratitilinn tvívegis en í fyrra skiptið batt Amorim enda á 19 ára bið eftir titlinum.

Bráðabirgðastjórinn Ruud van Nistelrooy mun stýra liði Man. United áfram áður en Amorim tekur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert