Åge Hareide, karlalandsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, finnst Rúben Amorim, nýi stjóri Manchester United, vera of ungur fyrir starfið.
„Mér finnst hann kannski aðeins of ungur. Þetta er án efa eitt erfiðasta starfið í evrópskum fótbolta,“ sagði Hareide á norska ríkismiðlinum NRK.
Amorim, sem er 39 ára gamall, hefur gert góða hluti með Sporting í heimalandinu og unnið tvo Portúgalsmeistaratitla sem stjóri liðsins.
„Hann hefur sýnt hæfileika hjá Sporting en portúgalska deildin snýst um fjögur lið, ef við erum sanngjarnir. Nú fer hann í ensku úrvalsdeildina sem er allt öðruvísi,“ sagði Hareide.
Amorim tekur við United 11. nóvember næstkomandi. Ruud van Nistelrooy stýrir liðinu til bráðabirgða eftir að Erik ten Hag var rekinn fyrr í vikunni.