Solanke með tvö í sigri Tottenham

Dominic Solanke fagnar með liðsfélögum sínum í dag.
Dominic Solanke fagnar með liðsfélögum sínum í dag. AFP/Adrian Dennis

Tottenham tók á móti Aston Villa í fyrri leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag í Lundúnum. Leikurinn var þrælfjörugur og endaði með sigri Tottenham, 4:1.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Tottenham því eftir leikinn er Tottenham í 7. sæti með 16 stig en Aston Villa er í 5. sæti með 16 stig.

Morgan Rogers kom gestunum í Aston Villa yfir á 32. mínútu þegar hann skoraði með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Heimamenn komu grimmir út í seinni hálfleikinn og jafnaði Brennan Johnson metin á 49. mínútu þegar hann skoraði eftir frábæra fyrirgjöf frá fyrirliða Tottenham, Son Heung-Min.

Þá var komið að Dominic Solanke sem skoraði tvö mörk á fjögurra mínútna kafla. Það fyrra kom á 75. mínútu eftir að Dejan Kulusevski setti Englendinginn í gegnum vörn Villa og kláraði Solanke færið sitt frábærlega. Solanke bætti við öðru marki sínu á 79. mínútu eftir flotta sendingu frá Richarlison sem var nýkominn inn á sem varamaður.

Annar varamaður, James Maddison, skoraði síðan fjórða mark Tottenham á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar hann skoraði með góðu skoti beint úr aukaspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka