Leikmenn enska knattspyrnuliðsins Manchester United vilja ólmir halda Ruud van Nistelrooy hjá félaginu. Framherjinn fyrrverandi hefur verið bráðabirgðastjóri liðsins eftir að Erik ten Hag var rekinn.
Portúgalinn Rúben Amorim hefur verið ráðinn stjóri United og tekur við á næstu dögum. Sky greinir frá að leikmenn vilji vinna áfram með van Nistelrooy með nýja stjóranum.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um framtíð Hollendingsins þegar Amorim tekur við, en hann vill taka fimm aðstoðarmenn sína með frá Sporting og því óljóst hvort það sé pláss fyrir van Nistelrooy.
Van Nistelrooy hefur sjálfur sagt að hann hafi mikinn áhuga á að vera áfram hjá United, þar sem hann var leikmaður frá 2001 til 2006 og er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum.