Margrét Lára: Sakna hans mjög mikið

„Mér finnst þeir sakna Ödegaard mjög mikið,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í Vellinum á Símanum Sport í gærkvöldi.

Arsenal tapaði 1:0 fyrir Newcastle United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, hefur verið frá vegna meiðsla um skeið, sem Margréti Láru finnst koma mikið niður á sóknarleik liðsins en hann var ekki upp á marga fiska á laugardag.

„Það er mikil skotógn af honum, hann er mikið að reyna að koma sér í skotstöður fyrir utan teig. Sérstaklega í leikjum eins og þessum þar sem er lítið um svæði,“ sagði hún um Norðmanninn.

Eiður Smári Guðjohnsen tók í sama streng:

„Ég er sammála með Ödegaard. Allt í einu kemur í ljós hversu mikilvægur hann er því hann er einn af þeim sem spilar boltanum fram á við.

Hann leitar að þríhyrningsspili og ef boltinn kemur ekki aftur þá tekur hann hlaupið og myndar pláss í kringum. Allt í einu förum við að sjá að þeir sakna hans hrikalega mikið.“

Umræðu Margrétar Láru, Eiðs Smára og Harðar Magnússonar um Arsenal má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka