Norski knattspyrnumaðurinn Martin Ödegaard, fyrirliði Arsenal, hefur hafið æfingar að nýju eftir að hafa verið frá vegna ökklameiðsla undanfarna tvo mánuði.
Ödegaard meiddist í landsleik með Noregi í byrjun september og hefur af þeim sökum misst af tólf leikjum í öllum keppnum.
Hann æfði hins vegar með Arsenal í morgun og vonast til þess að vera klár í slaginn fyrir leik liðsins gegn Ítalíumeisturum Inter Mílanó í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu annað kvöld.
Ödegaard hefur verið sárt saknað og sérstaklega að undanförnu þar sem Arsenal hefur aðeins unnið sér inn eitt stig af níu í síðustu þremur leikjum í ensku úrvalsdeildinni.