Dýrkeypt víti reyndist rangur dómur

Erik ten Hag var rekinn eftir tap Manchester United gegn …
Erik ten Hag var rekinn eftir tap Manchester United gegn West Ham United. AFP/Paul Ellis

Vítaspyrna sem West Ham United fékk í 2:1-sigri á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla um þarsíðustu helgi var rangur dómur að mati Howards Webbs, formanns samtaka atvinnudómara á Englandi.

The Times greinir frá því að Webb hafi verið ósammála ákvörðuninni.

Tæplega sólarhring eftir tapið var Erik ten Hag rekinn úr starfi knattspyrnustjóra Manchester United og því útlit fyrir að ákvörðunin hafi reynst honum afar dýrkeypt, þó ekki sé útilokað að félagið hefði rekið hann ef leiknum hefði lyktað með jafntefli.

Staðan var 1:1 þegar Danny Ings féll við í vítateignum. Dómarinn David Coote dæmdi ekkert en skoðaði atvikið nánar eftir að VAR-dómarinn Michael Oliver hafði mælt með því.

Coote skipti í kjölfarið um skoðun, dæmdi brot á Matthijs de Ligt þó Ings virtist hafa handleikið knöttinn skömmu áður og Jarrod Bowen skoraði sigurmarkið úr spyrnunni á annarri mínútu uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert