Mendy vann mál gegn City

Benjamin Mendy.
Benjamin Mendy. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Benjamin Mendy vann dómsmál gegn fyrrverandi félagi sínu Manchester City vegna vangoldinna launa.

Mendy kærði Man. City fyrir að hafa hætt að greiða sér laun eftir að Frakkinn var handtekinn, grunaður um að hafa nauðgað þremur konum í ágúst árið 2021.

Þrjár konur til viðbótar kærðu hann í kjölfarið fyrir nauðgun en í janúar 2022 var Mendy svo sleppt gegn tryggingu. Í janúar 2023 komst dómstóll að þeirri niðurstöðu að hann væri ekki sekur í öllum ákæruliðum.

Þurfa að greiða megnið af upphæðinni

Mendy var samningsbundinn Man. City til sumarsins 2023 en hélt því fram í kæru sinni að félagið hafi hætt að greiða sér laun allt frá því að hann var handtekinn.

Í dómsúrskurði sem var birtur í dag segir að Man. City hafi ekki mátt hætta að greiða Mendy laun þegar hann var ekki í varðhaldi en að félagið hafi átt rétt á því á því tímabili sem hann sat inni.

Mendy krafðist 11,5 milljóna punda í vangoldin laun og samkvæmt úrskurðinum þarf Man. City að greiða honum megnið af þeirri upphæð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert