Enska knattspyrnufélagið Coventry hefur vikið Mark Robins frá störfum sem stjóra karlaliðs félagsins eftir tæp átta ár í starfi.
Coventry hefur náð eftirtektarverðum árangri undir stjórn hins 54 ára gamla Robins. Hann tók við liðinu í D-deildinni, en skilur við það í B-deildinni.
Hann var hársbreidd frá því að koma liðinu upp í ensku úrvalsdeildina á síðasta ári en liðið tapaði fyrir Luton í úrslitum umspilsins í B-deildinni. Þá komst liðið alla leið í undanúrslit enska bikarsins á síðustu leiktíð.
Coventry er sem stendur í 17. sæti B-deildarinnar, eftir frekar erfiða byrjun á leiktíðinni. Liðið tapaði fyrir nýliðum Derby, 2:1, á heimavelli í gær og var það síðasti leikur Robins með liðið.