Skoski knattspyrnuþjálfarinn Darren Fletcher, einn af aðstoðarþjálfurum enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United, hefur verið úrskurðaður í þriggja leikja bann og sektaður um 7.500 pund, tæpar 1,4 milljónir króna.
Fletcher brást illa við marki sem United fékk á sig á móti Brentford í ensku úrvalsdeildinni 19. október síðastliðinn. Var hann dónalegur í garð fjórða dómarans í kjölfarið.
Ethan Pinnock skoraði með skalla eftir horn og voru United-menn ósáttir við að Matthijs de Ligt fengi ekki að verjast horninu, þar sem blæddi úr höfði hans.
Erik ten Hag, sem var rekinn frá United á dögunum, fékk einnig spjald eftir atvikið. Ruud van Nistelrooy, tímabundinn stjóri United, var sömuleiðis færður til bókar fyrir sín mótmæli.