Brighton lagði Manchester City, 2:1, í 11. umferð ensku úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld.
Þetta er fjórði tapleikur City í röð í öllum keppnum og í fyrsta skipti í stjórnartíð Pep Guardiola sem það gerist en hann hefur stýrt liðinu frá árinu 2016.
Manchester City situr áfram í öðru sæti með 23 stig eftir 11 leiki. Brighton fer upp í fjórða sæti með 19 stig.
Savinho fékk fyrsta færi leiksins eftir stundarfjórðung. Mateo Kovacic átti sendingu á Savinho í hlaupinu sem var einn á móti markmanni en Bart Verbruggen, markvörður Brighton, sá við honum.
Manchester City komst yfir á 23. mínútu með marki frá norsku markamaskínunni Erling Haaland. Kovacic átti stórkostlega stungusendingu á Haaland sem skaut en Verbruggen varði frá honum. Norðmaðurinn hirti frákastið og skoraði í autt markið.
Eftir einstefnu City átti Brighton góðan kafla síðustu 10 mínúturnar í fyrri hálfleik. Danny Welbeck komst í gott færi í teignum en Josko Gvardiol, varnarmaður City, henti sér fyrir skot hans.
Staðan í hálfleik, 1:0 fyrir Manchester City.
Brighton byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Á 52. mínútu kom Pervis Estupinan með góða fyrirgjöf sem fann kollinn á Jack Hinshelwood en skalli hans var varinn af Ederson í marki City.
Á 69. mínútu fékk varamaðurinn Joao Pedro dauðafæri fyrir Brighton til að jafna metin. Pedro fékk sendingu inn fyrir vörn City og var einn á móti Ederson, markverði City, en á einhvern ótrúlegan hátt skaut hann framhjá.
Brighton skoraði verðskuldað jöfnunarmark á 78. mínútu. Pedro nýtti sér klaufagang í vörn City og skoraði af stuttu færi.
Á 83. mínútu náði Brighton forystunni með marki frá Dananum Matt O’Riley í sínum fyrsta deildarleik. Það kom eftir góða sendingu inn fyrir á O’Riley á Pedro sem skoraði af öryggi framhjá Ederson.
City reyndi að jafna metin en það gekk ekki. Lokaniðurstöður í kvöld, 2:1-sigur Brighton.