Franski knattspyrnumaðurinn Leny Yoro gekk í raðir Manchester United fyrr í sumar en hann meiddist á undirbúningstímabilinu.
Hann þurfti að fara í skurðaðgerð á fæti og hefur ekki enn spilað sinn fyrsta keppnisleik fyrir Manchester United.
Hann er hins vegar mættur til æfinga á ný en óljóst er hvenær hann snýr aftur á völlinn.
„Þegar ég mæti á völlinn og horfi á leikina þá langar mig bara að vera á vellinum.
Þetta er að nálgast, ég vil vera á vellinum ásamt strákunum og berjast fyrir Manchester United,“ sagði Frakkinn, sem verður 19 ára í næstu viku, við heimasíðu félagsins.