Chelsea og Arsenal gerðu 1:1-jafntefli í hörkuleik í 11. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu á Stamford Bridge í kvöld.
Úrslitin þýða að Chelsea situr í þriðja sæti með 19 stig en Arsenal er í fjórða sæti með jafn mörg stig.
Chelsea byrjaði viðureignina af krafti og var töluvert meira með boltann á fyrstu mínútunum.
Malo Gusto fékk dauðafæri á 24. mínútu til að koma Chelsea yfir. Pedro Neto kom með góða fyrirgjöf á Gusto í markteignum sem á einhvern ótrúlegan hátt skallaði boltann yfir markið.
Skömmu síðar fékk Gabriel Martinelli gott færi til að koma Arsenal-mönnum yfir. Boltinn hrökk fyrir fætur Martinelli í teignum sem var einn á móti markmanni en Robert Sanchez, markvörður Chelsea, sá við honum.
Á 32. mínútu skoraði Kai Havertz fyrir Arsenal. Eftir stutta VAR-skoðun kom í ljós að Þjóðverjinn hafði verið rangstæður í aðdragandanum og var markið því dæmt af.
Markalaust var í hálfleik eftir rólegan fyrri hálfleik.
Chelsea-menn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru meira með boltann á fyrstu mínútunum.
Á 53. mínútu kom Noni Madueke með góða sendingu á fjærstöngina sem Wesley Fofana náði að teygja sig í en skot hans fór yfir markið.
Arsenal tók forystuna á 60. mínútu eftir mark frá Brasilíumanninum Gabriel Martinelli. Það kom eftir góða sendingu frá Martin Ödegaard á Martinelli á fjærstönginni sem tók boltann niður og skoraði síðan með góðu skoti úr þröngu færi.
Pedro Neto jafnaði metin fyrir Chelsea á 70. mínútu. Enzo Fernández lagði boltann á Neto fyrir utan teiginn sem skoraði með þrumuskoti meðfram jörðinni í hægra hornið.
Mörkin urðu ekki fleiri og lokaniðurstöður voru því 1:1-jafntefli.