Manchester United vann öruggan 3:0 sigur á liði Leicester í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford í dag. Leikurinn í dag var síðasti leikur Ruud van Nistelrooy með liðið en á morgun hefur störf hjá félaginu Ruben Amorim. Síðasta verkefni Ruben Amorim með Sporting er að stjórna liðinu gegn Sporting Braga í portúgölsku úrvalsdeildinni í kvöld en síðan fer hann beint til England og tekur við liði Manchester United.
Þessi úrslit þýða að Manchester United er áfram í 13. sæti deildarinnar en núna með 15 stig eins og Bournemouth sem er í 11. sæti deildarinnar. Leicester er áfram með 10 sæti í 15. sæti deildarinnar.
Það sást strax í upphafi leiksins að heimamenn ætluðu sér sigur í þessum leik. Þeir byrjuðu af krafti og á 17. mínutu leiksins komust þeir yfir með marki frá fyrirliða liðsins, Bruno Fernandes. Bruno fékk þá flotta hælsendingu frá Amad Diallo, lagði boltann fyrir sig, og lét vaða með hægri fætinum rétt fyrir utan teiginn og boltinn steinlá í netinu. Virkilega smekklega gert hjá Manchester United. Eftir þetta mark vöknuðu gestirnir aðeins til lífsins og fengu nokkur færi til að jafna metin. Besta færið fékk Wilfred Ndidi á 28. mínútu leiksins en þá fékk hann sendingu inn fyrir vörn Manchester United en André Onana kom vel út á móti honum og varði skotið hans mjög vel.
Á 38. mínútu náðu leikmenn Manchester United að auka forystu sína í 2:0 en þá skoraði Victor Kristiansen sjálfsmark. Noussair Mazraoui átti þá fína sendingu fyrir markið og þar var Bruno Fernandes og hann reyndi að skalla boltann á markið en fékk boltann í lærið og þaðan fór boltinn í Victor Kristiansen og í markið. Ekki mikið sem hann gat gert í þessu. Það munaði svo ansi litlu að Amad Diallo kæmi Mannchester United í 3:0 í uppbótartíma í fyrri hálfleik en hann var þá búinn að plata vörn Leicester upp úr skónum en Mads Hermansen varði vel frá honum.
Leikmenn Leicester hófu seinni hálfleikinn ágætlega án þess þó að skapa sér alvöru marktækifæri. Besta færi þeirra fékk Wilfred Ndidi á 66. mínútu leiksins en André Onana varði frá honum úr þröngu skotfæri. Leikmenn Manchester United voru frekar rólegir í seinni hálfleik en eftir að Ruud van Nistelrooy fór að skipta leikmönnum inn á þá fóru loksins hlutir að gerast hjá þeim. Einn varamaðurinn, Alejandro Garnacho, var einmitt maðurinn sem skoraði þriðja mark Manchester United eftir frábæra skyndisókn liðsins. Christian Erikson, sem einnig kom inn á sem varamaður, átti þá flotta sendingu á Bruno Fernandes sem fann Garnacho og sá setti boltann efst í markhornið og kláraði þetta fyrir heimamenn. Öruggur 3:0 sigur staðreynd.
Enska úrvalsdeildin er á leiðinni í smá frí eftir daginn í dag en framundan er landsleikjahlé. Næsti leikur Manchester United í ensku úrvalsdeildinni er eftir tvær vikur en þá mæta þeir Ipswich á Portman Road en Leicester á heimaleik gegn Chelsea laugardaginn 23. nóvember.