Sú hollenska Renée Slegers mun stýra kvennaliði Arsenal í knattspyrnu út mánuðinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en hún verður við stjórnvölinn þar til að síðasta landsleikjahlé ársins líður hjá í byrjun desember.
Slegers hefur stýrt Arsenal í síðustu fjórum leikjum eftir að Svíinn Jonas Eidevall var rekinn. Þrír leikjanna unnust og og gerði Arsenal-liðið eitt jafntefli, gegn Manchester United.
Slegers var aðstoðarþjálfari Eidevall en hún var ráðin í september í fyrra. Áður stýrði hún liði Rosengård, þar sem landsliðskonan Guðrún Arnardóttir spilar.
Nick Cushing, þjálfari karlaliðs New York City í bandarísku MLS-deildinni, þykir líklegur arftaki Eidevall.