Kjartan Henry: United vantað þessa ryksugu

Kjartan Henry Finnbogason og Margrét Lára Viðarsdóttir voru gestir Hauks Harðarsonar í Vellinum á Símanum Sport á mánudagskvöld.

Í umræðu um Manchester United, sem vann öruggan 3:0-sigur á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag, var rætt um Alejandro Garnacho, Marcus Rashford og Manuel Ugarte.

„Hann er ungur miðað við stöðuna sem hann spilar, djúpur miðjumaður eða sexa,“ sagði Kjartan Henry um hinn 23 ára gamla Ugarte, sem lék undir stjórn nýs knattspyrnustjóra Man. United, Rúbens Amorims, hjá Sporting Lissabon.

„Þetta er hans sjötti leikur fyrir United og hann var búinn að vera meiddur. Það var auðvitað búið að ganga illa hjá liðinu og öll þessi umræða um ten Hag. Amorim og Ugarte hafa unnið saman áður.

Það er eitthvað spennandi við þetta og auðvitað mikilvægt fyrir United. Þeim hefur vantað akkúrat þennan leikmann, þessa ryksugu á miðjunni.

Það er svo mikilvægt í nútímafótbolta að fá ekki á sig skyndisóknir, að vera rétt staðsettur og vera smá leikstjórnandi í spili liðsins,“ sagði hann einnig um Úrúgvæann.

Umræðuna um Manchester United má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka