Virðist sniffa hvítt duft í nýju myndskeiði

David Coote.
David Coote. AFP/Paul Ellis

Enska götublaðið The Sun birti í kvöld nýtt myndskeið sem virðist vera af enska knattspyrnudómaranum David Coote, þar sem hann sniffar hvítt duft sem talið er að sé kókaín.

Coote hefur þegar verið settur til hliðar af samtökum atvinnudómara á Englandi, PGMOL, vegna myndskeiðs sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum á mánudag þar sem hann hraunar yfir Liverpool og Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóri karlaliðsins.

The Sun greinir frá því að myndskeiðið hafi verið tekið upp 6. júlí síðastliðinn, degi eftir leik Spánar og Þýskalands á EM 2024 í Þýskalands, þar sem Coote var aðstoðar VAR-dómari.

Vinur Cootes sendi The Sun myndskeiðið og segist í samtali við blaðið einnig hafa fengið sendar ljósmyndir frá enska dómaranum þann 1. júlí, þar sem mætti sjá greiðslukort við hliðina á sex línum af hvítu dufti.

PGMOL hefur sent frá sér stutta yfirlýsingu vegna nýjasta myndskeiðsins þar sem kemur fram að samtökunum sé kunnugt um það.

Enska knattspyrnusambandið rannsakar Coote einnig vegna fyrra myndskeiðsins og þá tók UEFA hann af verkefni sem Coote átti að sinna í komandi landsleikjahléi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert