UEFA setur dómarann í bann

David Coote.
David Coote. AFP

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur sett enska dómarann David Coote í bann.

UEFA tók Coote úr landsliðsverkefni sem hann átti að sinna í komandi landsleikjahléi eftir að myndskeið af honum fór í dreifingu á mánudag. Þar sést Coote úthúða Li­verpool og Jür­gen Klopp, fyrr­ver­andi knatt­spyrn­u­stjóra karlaliðsins.

Í gærkvöldi birti götublaðið The Sun svo myndskeið þar sem enski dómarinn virðist sniffa hvítt duft, sem talið er að sé kókaín.

Breska ríkisútvarpið spurði talsmann UEFA út í stöðu Cootes og fékk þau svör að hann hafi tafarlaust verið settur í bann eftir birtingu fyrra myndskeiðsins.

Velferð Davids í forgunni

Samtök atvinnudómara á Englandi, PGMOL, hafa í yfirlýsingu sagst taka nýjum vendingum í málinu, ásökunum um kókaínneyslu Cootes, alvarlega og að hann sé í banni á meðan samtökin framkvæmi eigin rannsókn.

„Velferð Davids er sem fyrr í forgrunni hjá okkur og við erum staðráðin í að veita honum þann nauðsynlega stuðning sem hann þarf á að halda á þessum tímapunkti.

Við erum ekki í aðstöðu til þess að tjá okkur frekar á þessu stigi málsins,“ sagði einnig í yfirlýsingu PGMOL.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert