Írski sparkspekingurinn Roy Keane skaut létt á tilvonandi tengdason sinn Taylor Harwood-Bellis eftir að hann skoraði fimmta mark Englands í 5:0-sigri á Írlandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í gærkvöldi.
Harwood-Bellis, miðvörður Southampton, lék sinn fyrsta landsleik fyrir A-landslið Englands og skoraði með hörkuskalla. Hann er trúlofaður Leuh Keane, dóttur Roys.
„Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja þessu,“ sagði Keane um markið er hann lýsti leiknum ásamt Mark Pougatch á ITV sjónvarpsstöðinni á Englandi í gærkvöldi.
„Það vita það ekki allir en hann er verðandi tengdasonur þinn,“ sagði Pougatch þá.
Keane greip ummæli Pougatch á lofti og sagði í léttum tón: „Það liggur ekki alveg ljóst fyrir. Hlutirnir geta verið fljótir að breytast á heimili Keane-fjölskyldunnar.“