Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, viðurkennir að hann hafi hugsað með sér að yfirstandandi tímabil yrði sitt síðasta hjá enska félaginu. Guardiola hafi síðan snúist hugur vegna slæms gengis að undanförnu.
Skrifaði hann undir tveggja ára samning í dag og verður því við stjórnvölinn út tímabilið 2026-27.
Man. City hefur tapað fjórum leikjum í röð í öllum keppnum, sem er í fyrsta skipti sem það gerist hjá Guardiola á þjálfaraferlinum þegar vítaspyrnukeppnir eru ekki teknar með.
„Ég gat ekki farið núna. Kannski voru töpin fjögur ástæðan fyrir því að mér fannst ég ekki geta yfirgefið félagið. Allt frá því í upphafi tímabils hef ég verið að hugsa mikið.
Svo ég sé hreinskilinn hugsaði ég með mér að þetta tímabil skyldi vera mitt síðasta. En á sama augnabliki koma upp þessar aðstæður þar sem við höfum átt í vandræðum undanfarinn mánuð,“ sagði Spánverjinn í samtali við heimasíðu Man. City.
Guardiola bætti því við að Khaldoon Al-Mubarak stjórnarformaður, Txiki Begiristain yfirmaður knattspyrnumála og fleiri hjá félaginu hafi sýnt honum mikið traust, sem hafi hjálpað til við ákvörðunina.
„Þess vegna fannst mér ekki tímabært að fara. Ég myndi segja að ég vildi ekki bregðast félaginu. Ég fann fyrir trausti stjórnarformannsins, Txiki og allra annarra og fannst sem ég þyrfti að gera þetta.“