Knattspyrnumaðurinn Abdul Fatawu leikur ekki meira með liði sínu Leicester á yfirstandandi tímabili.
Sóknarmaðurinn, sem er tvítugur, sleit krossband í hné í leik með landsliði Gana í landsleikjaglugganum og tekur því ekki þátt í fleiri leikjum á leiktíðinni.
Hann gekk til liðs við Leicester í sumar frá Sporting í Portúgal fyrir tíu milljónir evra og skrifaði undir fimm ára samning við félagið.
Kantmaðurinn hefur leikið alla ellefu leiki liðsins á tímabilinu í úrvalsdeildinni og lagt upp tvö mörk en liðið, sem er nýliði í deildinni, er með tíu stig í 15. sætinu.