Ekkert VAR hjá United vegna brunabjöllu

Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, á hliðarlínunni í leiknum gegn …
Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, á hliðarlínunni í leiknum gegn Ipswich Town í gær. AFP/Darren Staples

Ekki var hægt að styðjast við VAR myndbandsdómgæslu um stundarsakir á meðan leik Ipswich Town og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu stóð í gær vegna þess að brunaviðvörunarbjalla fór í gang í höfuðstöðvum VAR-dómara.

Höfuðstöðvar VAR-dómara eru í Stockley Park í Lundúnum. Bjallan fór í gang þegar leikurinn var tiltölulega nýbyrjaður og Man. United hafði náð forystunni eftir aðeins um 80 sekúndna leik.

Það þýddi að dómararnir þurftu að yfirgefa höfuðstöðvarnar og var því engin VAR-dómgæsla í um fimm mínútur í leiknum, sem lauk með jafntefli, 1:1.

Dómarinn Anthony Taylor lét fyrirliða beggja liða vita hvernig í pottinn var búið en virtist fjarvera myndbandsdómgæslunnar ekki hafa nein áhrif á leikinn á meðan ekki var hægt að styðjast við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert