Jamie Carragher, sparkspekingur hjá Sky Sports og fyrrverandi knattspyrnumaður, er ekki ánægður með ummæli Mohamed Salah, leikmanns Liverpool, eftir leik gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni á sunnudag.
Salah ræddi við fréttamenn og sagðist svekktur yfir því að Liverpool hefði ekki enn boðið sér nýjan samning, en núverandi samningur hans rennur út eftir tímabilið.
„Ég verð að segja að ég er mjög svekktur út í Mo Salah. Liverpool mætir Real Madríd í miðri viku og svo Man. City um helgina. Það er aðalatriðið núna.
Ef hann heldur áfram að tjá sig með þessum hætti og umboðsmaður hans birtir dulin skilaboð þá er það eigingjarnt. Þá eru þeir að hugsa um sig sjálfa en ekki knattspyrnufélagið,“ sagði Carragher í sjónvarpsþættinum Monday Night Football í gærkvöldi.
Samkvæmt breska ríkisútvarpinu á Liverpool í viðræðum við Ramy Abbas Issa, umboðsmann Salah, um nýjan samning og hafa þær viðræður verið jákvæðar.