Forráðamenn enska knattspyrnufélagsins Manchester United hækkuðu miðaverð á heimaleiki félagsins í dag og tóku úr gildi afslætti fyrir eldri borgara og börn.
Þurfa stuðningsmenn á öllum aldri nú að reiða fram 66 pund, tæplega 12.000 krónur, fyrir miða á Old Trafford. Það kostar því tæplega 24.000 krónur fyrir fullorðinn einstakling að fara með eitt barn á leik.
Samtök stuðningsmanna félagsins eru allt annað en sátt með ákvörðunina, sem var tekin til að efla fjárhagsstöðu Manchester-félagsins.
„Í dag kostar það stuðningsmann 132 pund að fara með barnið sitt á leik, eða tvöfalt meira en það kostaði í gær. Þessi breyting var gerð fyrirvaralaust og er móðgandi fyrir stuðningsmenn,“ segir m.a. í yfirlýsingu samtaka stuðningsmanna félagsins.
„Það er móðgandi að stuðningsmönnum sé refsað fyrir ofeyðslu stjórnarinnar. Við stuðningsmenn höfum gert allt sem við getum gert, þrátt fyrir slaka frammistöðu liðsins. Við mótmælum þessari ákvörðun harðlega,“ segir einnig í yfirlýsingunni.