Enska knattspyrnufélagið Leeds sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag í tengslum við mál dómarans Davids Cootes.
Coote, sem hefur lent í miklum vandræðum undanfarið, var samkvæmt The Sun beðinn um að gefa Ezgjan Alioski, þáverandi leikmanni Leeds, gult spjald af félaga sínum í leik Leeds gegn West Brom í ensku B-deildinni árið 2019.
Alioski fékk gult spjald á 18. mínútu leiksins. Coote á að hafa sent á félaga sinn eftir leikinn:
„Ég vona að þú hafir veðjað á það sem við töluðum um.“ Félaginn sagðist hins vegar ekki hafa gert það.
Coote hagnaðist ekki sjálfur á atvikinu og hafnar enska dómarasambandið því að Coote hafi spjaldið leikmanninn viljandi.
Leeds sendi frá sér yfirlýsingu út af málinu í dag.
„Við erum meðvituð um ásakanirnar en virðum og berum fullt traust til enska knattspyrnusambandsins, B-deildarinnar og dómarasambandsins.
Við munum ekki gera frekari athugasemdir að svo stöddu,“ kom fram í yfirlýsingu Leeds.